154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[15:59]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Til að gera stuttlega grein fyrir afstöðu minni og okkar í Samfylkingunni þá styðjum þetta mál svo langt sem það nær. Hér gengur okkur hins vegar úr greipum gullið tækifæri til að gera svo miklu betur. Þetta frumvarp er sett fram í þeim tilgangi að koma Grindvíkingum til hjálpar, fjölga almennum íbúðum á markaði, íbúðum sem hingað til hafa verið nýttar í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á að þetta er tækifæri til að leiðrétta þessa bjöguðu samkeppni sem hefur skapast með reglugerðarsetningu 2018 og sem við, löggjafinn, getum lagað. En það skortir hér alfarið pólitískan vilja til. Þangað til þetta frumvarp fær samþykki hér mun enn þá standa yfir útsala á rekstrarleyfunum. Og um þessar mundir bendir bara hreinlega margt til þess að fólk sé að kaupa sér íbúðir til að setja upp Airbnb-gistingu og gistileyfin eru þá sömuleiðis á útsölukjörum í boði ríkisstjórnarinnar.

Forseti. Þetta er eiginlega ekki hægt. Þetta er hænuskref í rétta átt (Forseti hringir.) en það er eins með þetta og margt annað, það þarf stundum raunverulegt hugrekki til að gera raunverulegar úrbætur. (Forseti hringir.) Ég styð þetta mál en hér eru ónýtt tækifæri.